Fyrsta fimmtudagshlaup sumarsins 2011 fór fram í Elliðaárdal 5. maí. Nýfenginn tímatökubúnaður var notaður og reyndist mjög vel. Þó má geta þess hér að álstengur, sem bera flagg og tímastöð, eru nokkuð fyrirferðarmiklar og erfitt að bera margar með sér um þéttan skóg. Menn mega því búast við að það taki lengri tíma að koma póstunum fyrir en þeir eru vanir. Þá er ekki auðvelt að stinga stöngunum niður í hraun þannig að gott gæti verið að koma sér upp hentugum böndum til að festa þær við næsta tré.
Þrjár brautir voru í boði að þessu sinni. Sú lengsta var 4,7 km, “perlufestarrathlaup”, þar sem flögg voru aðeins á 19 póstum af 28 sem merktir voru á kortið. Styttri brautir voru “venjulegar”, önnur 2,7 km með 12 póstum og hin 1,6 km með 8 póstum.
Það sýndi sig að ýmsir ágætir hlauparar flæktust í perlufestinni og misstu af póstum. Í stað þess að dæma þá alla úr leik, eins og tímatökuforritið vildi helst gera, var ákveðið að létta af þeim bölvuninni og gefa þeim lokatíma. Til að aðgreina þá frá hinum, sem luku hlaupinu með fullri sæmd, eru nöfn þeirra skrifuð með rauðu í úrslitatöflunum. Í sundurliðuðu töflunni má svo sjá í hverju syndir þeirra eru fólgnar.
/gh.
Leave a Reply
You must be logged in to post a comment.