Ratlaupfélagið Hekla

Hvað er rathlaup

ATH – Þessi texti er enn í vinnslu

Hvað er rathlaup?
Rathlaup er hlaupaíþrótt sem stunduð er á opnum svæðum bæði innan borgarmarka og utan. Íþróttin er þannig lík víðavangshlaupi.  Þátttakendur fá kort (oftast sérstakt rathlaupskort) af hlaupasvæðinu og eiga með aðstoð þess að fara á milli stöðva sem merktar eru á kortið. Hefðbundið rathlaup gerir ráð fyrir því að farið sé á milli stöðvanna í fyrirfram ákveðinni röð en til eru ýmsar aðrar útgáfur (þær má meðal annar sjá hér). Rathlaup er því íþrótt sem að er stunduð utandyra í sátt við náttúruna og umhverfið. Hún gerir miklar kröfur til hlauparans enda þarf hann að einbeita sér að því að rata rétta leið um leið og hann fer eins hratt og hægt er yfir svæði sem getur verið honum algjörlega ókunnugt. Bretar kalla rathlaup því “hlaup hins hugsandi manns”. Keppendur geta tekið þátt á ólíkum forsendum enda ekki nóg að vera fljótur að hlaupa heldur þarf að æfa rötun og kortalestur jafnóðum og þrek, úthald og tækni er æfð.
Rathlaup er fyrir alla og gjarnan stundað sem fjölskylduíþrótt. Stærri mót og keppnir bjóða keppendum að taka þátt í mörgum flokkum eftir aldri, kyni, áhuga og getu hvers og eins.


Hefðbundið rathlaup fer svona fram:
Rásmarkið er opið í ákveðin tíma (oft eina og hálfa klukkustund). Þegar keppendur koma skrá þeir komu sína hjá stjórnanda hlaupsins. Þar fá þeir skorkort sem þeir merkja með nafni sínu. Þeir fá svo rástíma en oftast er ræst með um tveggja mínútna millibili. Um hálfri mínútu áður en þeir leggja af stað fá þeir kortið í hendurnar og geta þá farið að kynna sér leiðina. Þegar tímavörður gefur merki hefst hlaupið. Keppandi hleypur þá af stað og reynir að finna fyrstu stöðina. Stöðvarnar eru merktar inn á kortið ásamt strikum á milli þeirra og númerum sem sýna röð stöðvanna. Til að finna stöðvarnar les keppandi kortið og leitar að sérstökum rathlaupsflöggum. Þau eru hvít og appelsínugul og sjást því vel í náttúrunni. Við komuna á fyrstu stöðina þarf keppandi að merkja komu sína á skorkortið. Til þess notar hann gataklemmu sem hann finnur hjá flagginu. Á flagginu er einni sérstakt númer sem að hann getur borið saman við upplýsingar á kortinu sínu til að staðfesta að hann er á réttum stað. Gataklemmurnar hafa allar mismunandi merki þannig að það má lesa úr skorkortinu eftir hlaupið hvort að keppandi fann réttar stöðvar í réttri röð. Þegar stöð eitt hefur verið fundin og merkt á skorkortið heldur hlaupið áfram og farið er á allar stöðvarnar þar til keppandi kemur á endastöðina. Þar stoppar tímavörður tíman og tekur við skorkorti keppanda. Úrslit ráðast af hraða keppenda og því hvort að þeir hafa fundið allar stöðvarnar og merkt þær rétt á skorkortið.

Hvað þarf að koma með og kunna?
Engan sérstakan búnað þarf til að stunda rathlaup. Ekki þarf heldur sérstaka kunnáttu. Hægt er að læra allt sem þarf með því einu að taka þátt. Að sjálfsögðu getur einnig verið gott að kynna sér orienteering á netinu eða af bókum.
Gott er að vera með góða hlaupaskó og létt föt til að hlaupa í. Einu leyfðu hjálpartækin eru áttaviti auk þess sem sumir hlaupa með sérstök gleraugu eða skyggni til að auðvelda sér lestur kortsins. Ekki er leyfilegt að nota GPS tæki enda væri gagnið af slíku takmarkað.

Ef þú ert að mæta í fyrsta skipti (eða jafnvel annað og þriðja) eru félagar Heklu alltaf tilbúnir að útskýra íþróttina og hjálpa þér að komast af stað.

ÍSÍ hefur viðkennd Rathlaup sem íþrótt á Íslandi.  Þessi staðfesting á við um þá grein rötunnaríþrótta sem kallast Foot Orienteering hjá IOF (Alþjóða Ratíþrótta Sambandsins/International Orienteering Federation). Undir sambandið heyrir einni Ski Orienteering, Mountain Bike Orienteering og Trail Orienteering. Þessar ratíþróttir eiga það allar sameiginlegt að keppendur reyna að komast ákveðna leið með aðstoðar korts á sem styðstum tíma. Íþróttirnar gera einnig ráð fyrir því að keppendur fari fyrir eigin orku. Líkt og í hefðbundnu rathlaupi eru til ýmsar æfinga og keppnisútgáfur af öllum greinum ratíþrótta.

Comments

Leave a Reply