Ratlaupfélagið Hekla

HeklaPunch – rathlaups appið

Nemendur í tölvunarfræði við Háskóla Íslands (Hugbúnaðarverkefni2) smíðuðu vorið 2013 rathlaups app fyrir android síma.  Hönnun appsins var gerði í sammvinnu við rathlaupsfélagið Heklu.  Appið er kallað Hekla Punch.

Grunn grunnatriði rathlaupa

Kort

Kort er grundvallareining í rathlaupi.  Það má segja að það sé íþróttahúsið.  Kortið skilgreinir þann leikvöll sem nota skal.  Í rathlaupum á keppnisstigi eru notuð sérstök stöðluð kort, þar sem öll einkenni lands hafa sérstakan rithátt og tákn.  Það krefst þjálfunar og kunnáttu að útbúa rathlaupskort af því tagi.

En það er langt því frá ómögulegt að skipuleggja rathlaup án þess að hafa sérstakt rathlaupskort.  Hægt er að nota ýmis konar kort, einföld götukort, myndkort, göngukort og svo framvegis.  Það er auðvelt að verða sér úti um kort í dag, til dæmis hjá Open Street Map.

Stöð

Stöð í rathlaupasamengi er ákveðinn staður á korti og landi.   Á korti er stöð merkt sem hringur. Í raunheimi er það einhverskonar tæki eða miði sem komið er fyrir á þeim stað sem hringurinn á kortinu segir til um.  Stöðin hefur einhvern útbúnað sem gerir mögulegt að staðfesta að um þessa og enga aðra stöð er að ræða.

Braut

Braut er röð af stöðvum.  Keppnishaldari teiknar brautina á kort og setur stöðvar hennar á rétta staði í landinu.

Keppni

Í rathlaupskeppni er keppt í að hlaupa ákveðna braut á sem stystum tíma.  Brautin er keppandanum ókunn áður en hann hefur keppni.  Í byrjun keppni fær keppandinn afhent kort sem sýnir þá braut sem hann ætlar að hlaupa.  Keppandinn þarf svo að finna þær stöðvar sem merktar eru á kortið í landinu í þeirri röð sem brautin segir til um.  Á hverri stöð þarf hlauparinn að staðfesta að hann hafi komið þar.  Braut getur verið mis erfið úrlausnar en sammerkt er þeim öllum að hlauparinn þarf að rata að stöðvunum og velja fljótlegustu leið milli þeirra.

Appið Hekla Punch

android_market Appið sjálft má nálgast hér. Koma þarf apk skránni í símann, til dæmis með því að senda hana með bluetooth eða tölvupósti.  Þegar apk skráin er opnuð í símanum ætti appið að rata á réttan stað og verða nothæft eins og önnur öpp.

Appið er open source og undir skvokölluðu MIT license, sem þýðir að hver sem er getur nálgast kóðann og byggt á honum.

Brautargerð fyrir Hekla Punch

Hekla Punch býður ekki upp á neina kortavinnslu.  Hvorki kortagerð né teiknun brauta á kort.  Treysta þarf á önnur verkfæri til þess, enda er nóg til af þeim.

Skipuleggja braut

Velja svæði og kort

Keppnishaldari byrjar á að velja svæðið sem hlaupið skal haldið á.  Það fer eftir efnum og aðstæðum hvernig svæði er valið, en grundvallaratriði er að kort af svæðinu sé aðgengilegt.  Nákvæmni kortsins þarf að vera næg til að hægt sé að finna stöðvar án vafa.

Á OpenStreetMap eru til kort sem allir mega nota.  Einnig er hægt að fá lánuð kort á Google Maps, Já og map.is.

Staðsetja stöðvar á korti

Braut er hönnuð með því að teikna stöðvar (hringi) á kort.  Það má til dæmis gera með því að setja kort inn í teikniforrit og teikna hringina á það.  Hver hringur þarf að hafa einkvæmt auðkenni, svo ekki sé hægt að rugla þeim saman.  Röð stöðva myndar braut og teiknuð eru strik milli stöðvanna til að sýna röðina, auk þess sem stöðvarnar bera númer, 1.2.3… og svo framvegis.  Ekki er óalgengt að braut innihaldi um 10 stöðvar.  Til eru sérhæfð brautagerðaforrit, bæði keypt og ókeypis, svo sem OCAD og Purple Pen.

Prenta kort með braut

Þegar búið er að teikna braut á kort þarf að prenta út eintak fyrir hvern keppanda, enda hleypur keppandi með eintak af korti með braut á.

Útbúa auðkenni fyrir stöðvar

Hekla Punch notar QR skanna síma til að lesa auðkenni stöðva.  Til er fjöldi þjónusta á netinu til að útbúa QR myndir út frá texta.

Velja nöfn á stöðvar

Hekla Punch les þann texta sem kóðaður er í QR myndina og notar sem heiti stöðvar.  Því er upplagt að láta stöðvarnar heita lýsandi nöfnum, svo sem “Stöð 31”, “Stöð 32” og svo framvegis. (Hefð er fyrir því að byrja númer stöðva á 31).

Útbúa QR kóða fyrir stöðvar

Ýmsar þjónustur eru til á netinu þar sem hægt er að slá inn texta að eigin vali og út kemur QR kóði.  Dæmi um slíka þjónustu er á vef QRStuff.  Þar er valið afbrigðið plain text, valinn texti settur inn í textasvæðið og þá birtist QR kóða myndin til hægri, þar sem hægt er að hlaða henni niður.  Þetta er svo endurtekið fyrir hverja stöð.

Prenta auðkenni

Þegar búið er að útbúa QR kóða mynd fyrir allar stöðvar þarf að prenta út miða með hverri og einni.  Gott er að hafa nafn stöðvarinnar með á miðanum til glöggvunar fyrir hlauparann, því fæstir geta lesið beint úr QR kóða.  Það getur verið hagræði af því að plasta miðana svo þeir þoli vætu og hnjask betur, enda er hægt að endurnýta þá fyrir næstu braut.

Lesa braut inn í Hekla Punch

Þegar keppni fer fram þarf keppnisstjórinn að vera með brautarskilgreiningu innsetta í HP. Til eru tvær aðferðir til að lesa brautarskilgreiningu inn í Hekla Punch.

  1. Lesa kóða stöðvanna inn, eina af annari í þeirri röð sem teiknuð braut segir til um.

  2. Útbúa einn stóran QR kóða með öllum stöðvunum.  Textinn bak við þann QR kóða er þá texti allra stöðvanna í réttri röð aðskilinn með kommu.

Lagt út

Þegar keppnisstjóri hefur teiknað braut á kort og prentað út miða með QR kóðum sem samsvara stöðvum brautarinnar þarf hann að koma miðunum fyrir í landinu eins og brautin á kortinu segir til um.  Hann þarf ekki að gera það í þeirri röð sem brautin segir til um.  Mikilvægt er að vanda útsetninguna enda eiga keppendur ekki að þurfa að vera í neinum vafa þegar þeir finna stöðvar í keppnishlaupi.

Keppni

Keppnisstjóri teiknar braut á kort og leggur út stöðvar.

Keppnisstjóri les brautarskilgreiningu inn í sitt HeklaPunch.

Keppnisstjóri afhendir keppendum kort með braut á við byrjun hlaups.

Keppendir eru ræstir með í það minnsta mínútu millibili.

Keppendur lesa kortið og hlaupa að stöðvunum í réttri röð og skanna QR kóða stöðvarinnar (puncha) með sínu Hekla Punch

Þegar keppandi hefur skannað síðustu stöð brautarinnar sendir hann sitt hlaup yfir í Hekla Punch keppnisstjóra sem sýnir tíma og röðun keppandans.

 

Tilvísanir

Open Street Map – http://www.openstreetmap.org/

OCAD – http://www.ocad.com/en/

Purple Pen – http://purplepen.golde.org/

QRStuff – http://www.qrstuff.com/

Google Maps – maps.google.com

Já – http://ja.is/kort/?type=map

map.is – map.is