Kæru félagsmenn.
Um þar síðustu helgi lauk sumardagskrá rathlaupsfélagsins með meistaramótinu. Það hefur verið góð mæting á dagskrá félagsins í sumar og hlaupin hafa gengið vel. Í vetur munum við halda áfram að vera með öflugt starf.
Rathlaupsfélagið stóð fyrir 28 æfingum yfir sumarið og tóku 147 einstaklingar þátt í þeim. Meðal þátttaka var 15 í hvert hlaup. Í fyrra var meðaltalið 12 í hvert hlaup þannig fjölgunin hefur ekki verið mikil en við stefnum uppá við.
Á meistaramótinu voru afhent verðlaun fyrir bestu mætingu og ár var það Gísli Jónsson eins og árið á undan. Hér má sjá mætingu annarra hlaupara
1. Gísli Jónsson: 23
2. Dana, Gísli Örn og Guðmundur H: 18
3. Fjölnir: 17
4. Baldur, Christian P. og Skúli: 16
5. Hrafnhildur: 15
Á fimmtudögum í vetur munu félagar í rathlaupsfélaginu hittast og skokka saman í 40-50 mínútur. Í október er mæting er við Kópavogslaug kl. 17:00 (í vesturbæ Kópavogs) og í nóvember verður farið frá Laugardalslauginni.
Einu sinni í lok hvers mánaðar verður boðið upp stærri viðburði sem verða auglýstir sérstaklega þegar nær þeim dregur á rathlaup.is
Rathlaup í Elliðaárdal 27. nóvember
Innanhússrathlaup um miðjan desember
Göturathlaup í janúar
Næturrathlaup í febrúar
Göturathlaup í mars
Fjölskyldurathlaup í apríl
Annan mánudag í hverjum mánuði kl. 20 verður vinnukvöld þar sem félagsmenn koma saman og vinna að brautargerð eða kortagerð.
Allir eru velkomnir til að taka þátt í þessum viðburðum og munum við sérstaklega auglýsa stærri viðburði og vinnukvöldin þegar nær þeim dregur.
Kærar kveðjur,
fyrir hönd stjórnarinnar,
Gísli Örn.
Leave a Reply
You must be logged in to post a comment.